Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 292/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 292/2023

Miðvikudaginn 28. júní 2023

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Kristinn Tómasson læknir og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 11. júní 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkrahússins Vogs um að vísa honum úr meðferð.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. júní 2023. Með tölvupósti 12. júní 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands og barst svar frá stofnuninni sama dag.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið skjólstæðingur á Sjúkrahúsinu Vogi, sem sé rekið fyrir fjármagn frá Sjúkratryggingum Íslands. Honum hafi verið vísað úr meðferð eftir þriggja daga meðferð vegna brota á húsreglum. Brotið hafi verið að kærandi hafi farið frá Vogi í þrjár klukkustundir og komið síðan aftur.

Kærandi hafi verið þarna af fúsum og frjálsum vilja og ekki sé rétt að neita honum um meðferð þó að hann skreppi frá. Húsreglur hafi ekki verið kynntar fyrir honum í upphafi meðferðar og því ósanngjarnt að neita honum um meðferð vegna fávisku hans. Hann hafi hvorki fengið munnlega né skriflega áminningu heldur hafi honum verið stillt upp við vegg í litlu herbergi og hann spurður hvort hann vissi af hverju hann væri hér. Kærandi hafi sjálfur þurft að tína til hluti sem hann hafi ekki gert nógu vel, sem hafi verið mjög niðurlægjandi meðferð.

Þá segir að það geti vel verið að kærandi sé með hegðunarvandamál en það komi ekki í veg fyrir að hann fái læknishjálp við öðrum sjúkdómum. Það sé alveg á hreinu að starfsmenn á Vogi hafi ekki verið í stöðu til að neita kæranda um áframhaldandi stuðning frá Sjúkratryggingum Íslands.

IV.  Niðurstaða

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun Sjúkrahússins Vogs um að vísa kæranda úr meðferð.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ljóst er af kæru að kærandi er ósáttur við að Sjúkrahúsið Vogur hafi vísað honum úr meðferð þar. Fyrir liggur að Sjúkratryggingar Íslands komu ekki að þeirri ákvörðun enda hefur stofnunin enga aðkomu að því hver fær meðferð á Vogi. Ekki liggur því fyrir kæranleg ákvörðun frá Sjúkratryggingum Íslands. Ákvarðanir Sjúkrahússins Vogs eru ekki teknar á grundvelli laga sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015, og sæta því ekki endurskoðun úrskurðarnefndar velferðamála. Kæru er því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að mögulegt er að kvarta til Embættis landlæknis telji hann að mistök hafi átt sér stað þegar heilbrigðisþjónusta var veitt, sbr. 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum